Home / Biblíuefni / Afsakanir

Afsakanir

Afsakanir byrjuðu með fyrstu syndinni sem framin var. Biblían segir 1M 3:11-13 „En hann mælti: ...Hefir þú etið af trénu, sem ég bannaði þér að eta af? Þá svaraði maðurinn: Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át. Þá sagði Drottinn Guð við konuna: Hvað hefir þú gjört? Og konan svaraði: Höggormurinn tældi mig, svo að ég át.“

Þegar þú játar syndir afsakaðu þær ekki. Biblían segir: Jk 1:13-15 „Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: Guð freistar mín. Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns. Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir.“

Ekki leita eftir afsökun til að komast hjá hjónabandsskuldbindingum. Biblían segir: Mt 5:32 „En ég segi yður: Hver sem skilur við konu sína, nema fyrir hórsök, verður til þess, að hún drýgir hór. Og sá sem gengur að eiga fráskilda konu, drýgir hór.“

Þegar Guð leiðbeinir væntir hann samvinnu en ekki afsakana. Hann leggur til allt sem með þarf. Biblían segir: 2M 4:10-12 „Þá sagði Móse við Drottin: Æ, Drottinn, aldrei hefi ég málsnjall maður verið, hvorki áður fyrr né heldur síðan þú talaðir við þjón þinn, því að mér er tregt um málfæri og tungutak. En Drottinn sagði við hann: Hver gefur manninum málið, eða hver gjörir hann mállausan eða daufan eða skyggnan eða blindan? Er það ekki ég, Drottinn, sem gjöri það? Far nú, ég skal vera með munni þínum og kenna þér, hvað þú skalt mæla.“

Við eigum ekki að beita afsökunum til að komast hjá því að svara boði Guðs. Biblían segir: Lk 14:15-24 „ Þegar einn þeirra, er að borði sátu, heyrði þetta, sagði hann við Jesú: Sæll er sá, sem neytir brauðs í Guðs ríki. Jesús sagði við hann: Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið. Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. Og þjónninn sagði: Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm. Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist. Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína.“