Hvað segir Guð um þá sem leita til stjörnuspekinga og nota stjörnuspeki sem leiðbeinanda í lífi sínu? Biblían segir: Jes 47:13-15 Þú ert orðin þreytt á hinum mörgu fyrirætlunum þínum. Lát því himinfræðingana og stjörnuskoðarana koma og hjálpa þér, þá er á mánuði hverjum boða þér, hvað yfir þig á að koma. Sjá, þeir eru sem hálmleggir, eldurinn eyðir þeim. Þeir geta ekki bjargað lífi sjálfra sín úr loganum, því það verður ekki glóð til að orna sér við eða eldur til að sitja við. Svo munu þeir reynast þér, er þú hefir mæðst fyrir, þeir er keypt hafa við þig frá æskuárum þínum: Þeir þjóta í sína áttina hver, og enginn verður til að hjálpa þér.
Stjörnuspeki er spámannleg ágiskun, sem kennir að staða himintunglanna hafi áhrif á líf einstaklinga. Raunverulega hebreska orðið sem er notað um stjörnuspeki merkir að kanna himnana. Þessi yfirskilvitlega túlkun felst í því að segja fyrir um ókomna atburði eða að upplýsa leyndardóma með því að nota merki eða annað yfirnáttúrulegt. Guð bannar þannig háttsemi. Biblían segir: 3M 19:26 Þér skuluð eigi fara með spár né fjölkynngi.
Þegar Gyðingar voru að komast að fyrirheitna landinu, Kanaan, varaði Guð fólkið við þess háttar framferði. Biblían segir: 5M 18:9, 12, 14. Þegar þú kemur inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú ekki taka upp svívirðingar þessara þjóða....Því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni andstyggilegur, og fyrir slíkar svívirðingar rekur Drottinn Guð þinn þá burt undan þér.... Því að þessar þjóðir, er þú rekur nú burt, hlýða á spásagnamenn og galdramenn, en þér hefir Drottinn Guð þinn eigi leyft slíkt.
Þessi yfirskilvitlega ágiskun sem tengist göldrum er talin vera mikil synd. Biblían segir: 1S 15:23 Þrjóska er ekki betri en galdrasynd, og þvermóðska er ekki betri en hjáguðadýrkun og húsgoð.
Nebúkadnesar konung dreymdi draum og krafðist þess af spásagnamönnum, særingamönnum og stjörnuspekingum að þeir segðu honum drauminn. Hverju svöruðu þeir? Biblían segir: Dn 2:10 Kaldearnir svöruðu konungi og sögðu: Enginn er sá maður í heimi, er sagt geti það, er konungurinn mælist til, né heldur hefir nokkur mikill og voldugur konungur krafist slíks af nokkrum spásagnamanni, særingamanni eða Kaldea.
Stjörnuspekingar Babýlonar gátu ekki hjálpað konunginum með þennan vandasama draum. Guð blessaði Daníel, hinn biðjandi spámann, með hinni sönnu gjöf Heilags anda og hann var leiddur fyrir konunginn til að ráða drauminn. Biblían segir: Dn 2:27-28 Daníel svaraði konungi og sagði: ,Leyndardóm þann, sem konungurinn spyr um, geta hvorki vitringar, særingamenn, spásagnamenn né stjörnuspekingar sagt konunginum. En sá Guð er á himnum, sem opinberar leynda hluti, og hann hefir kunngjört Nebúkadnesar konungi það, er verða mun á hinum síðustu dögum. Draumur þinn og vitranir þær, er fyrir þig bar í rekkju þinni, voru þessa: Smurður af Guði gat Daníel sagt konunginum drauminn og ráðningu hans.